Launuð mótmæli, hvað annað á Íslandi?

Það er réttur hvers manns og hverrar stéttar að mótmæla, en væri ekki réttara að viðkomandi lögreglumenn færu úr einkennisbúningum sínum á meðan þeir gera svo? Ber okkur borgurunum að greiða fyrir mótmælastöðu lögreglumanna eða eiga þeir, líkt og aðrir, að gera þetta utan vinnutíma? Svari hver fyrir sig, en mér finnst þetta fremur ósmekklegt og í raun óeðlilegt. Hummm!
mbl.is Lögreglumenn mótmæla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allar líkur á?

Fróðlegt væri að vita hvar lagastoð er að finna fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðslan margumrædda fari EKKI fram. Stjórnarskráin okkar kveður skýrt á um slíka lagaskyldu, hún er æðst allra landslaga. Almenn lög ekki fyrir hendi, sem kveða á um annað. Fari atkvæðagreiðslan ekki fram hlýtur því einfaldlega að vera um valdníðslu að ræða, nú og auðvitað skýlaust stjórnarskrárbrot.
mbl.is Segir ekki langt í land í Icesave-deilu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lengi getur vont versnað

Æ, hvað var nú gaman að lesa þau ummæli fjármálaráðherra að fyrirhuguð þjóðaratkvæðagreiðsla væri barasta orðin "úrelt". Þá þarf þjóðin, sem fyrr, ekkert að hugsa eða hafa vit fyrir sjálfri sér. Við höfum jú þessa 63 einstaklinga til að hugsa fyrir okkur sauðina.
mbl.is Óvíst hvort Steingrímur kýs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað merkir "skal" á íslensku?

Á nú að kasta ryki í augu þjóðarinnar, enn einu sinni, varðandi skýringu á 26. gr. stjónarskráinnar okkar borgaranna (við eigum hana og hún tryggir rétt okkar gagnvart stjórnvöldum).

Téð lagagrein er einkar skýr og ber að túlka samkvæmt orðana hljóðan; í versta falli þröngt, en aldrei rúmt. Hún hljóðar svo (leturbreyting höfundar):

 "Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu."

Virtustu fræðimenn þjóðarinnar, fyrir daga 'fjölmiðlafrumvarpsstjórnarinnar', voru einhuga um að þegar Alþingi hefur afgreitt lagafrumvarp til forseta og hann synjað því staðfestingar, þá væri frumvarpið endanlega farið úr höndum Alþingis og færi þangað ekki aftur. Þeir þekktu og til merkingar orðsins "skal" og hvarflaði ekki að nokkrum þeirra að unnt væri að túlka stjórnarskrána með þeim hætti að Alþingi gæti afturkallað frumvarp með nýjum lögum !!! EN, nú er öldin önnur.

Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar braut stjórnarskrána á freklegan hátt í meðförum á fjölmiðlafrumvarpinu. Ég vona að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur geri ekki hið sama, enda varðar slíkt ábyrgð að lögum.

Í lokin þetta. Fari svo að þjóðin samþykki frumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslu, ber forseta að biðjast lausnar. Fari á hinn bóginn svo að þjóðin felli frumvarpið, þá ber ríkisstjórninni að segja af sér. Á þessu er tæplega skynsamlegur vafi. Þetta er grundvallarþáttur í stjórnskipan vestrænna ríkja, þ.e. þeirra sem trúa á lýðræði og byggja á kenningu John Locke um ríkisvald. Skyldi Ísland vera í þeim hópi?

   

xx


mbl.is Verður kosið um Icesave?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég slátra þér ef þú talar við mig!

Er búsettur í Brussel. Farandsölumaður bankaði uppá hjá mér í gær og bauð mér ódýrt nautakjöt til sölu. Sagði honum að halda kjafti og tala ekki meira við mig, annars myndi ég slátra honum. Viku áður var ég staddur í bílaumboði þegar starfsmaður vatt sér að mér og bauð mér nýjan bíl á hlægilegu verði. Sagði honum líka að halda kjafti, annars myndi ég slátra honum. Af hverju hagaði ég mér svona? Jú, ég er Íslendingur. Ég get allt, má allt og veit allt. Þarf ekki að hlusta á neitt bull. Svo er ég líka víkingur, og víkingar herja á aðrar þjóðir og skilja eftir sig sviðna jörð. Þeir eru sjálfstæðir, mega veiða eins marga hvali og þeir vilja, því þeir eru fullvalda. Þeir láta ekki útlendinga stjórna sér og vilja ekki taka þátt í samfélagi þjóða, sem er líka bull, enda er Ísland bestasta landið í öllum heiminum. Þess vegna skulum við "slátra ESB-kosningunni" eins fljótt og kostur er. Með því er tryggt að þjóðin fær aldrei að vita sjálf hvað var í boði við samningaborðið. Með því er líka tryggt að þjóðin fær aldrei sjálf að taka ákvörðun um eigin framtíð. En hvað þarf þessi rúmlega 300.000 manna þjóð líka að vita sjálf? Hún hefur 63 einstaklinga sem hugsa fyrir hana.  
mbl.is „Við slátrum ESB-kosningunni"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orð í tíma töluð

Fagna ber því að dómarar leyfi sér að taka þátt í opinberri umræðu um vanda dómstólanna, sem er í raun vandi almennings, þ.e. þjóðarinnar. Dómstjórinn í Héraðsdómi Reykjavíkur hefur nú sem oftar lög að mæla. Um leið og stjórnvöld huga að því að fjölga dómendum til að takast á við þann þjófélagsvanda sem blasir við, væri einnig rétt að skoða hvort ekki sé sanngjarnt og rétt að skila núverandi dómurum til baka þeirri 15% launalækkun, eða í það minnsta hluta hennar, sem ríkisvaldið knúði fram fyrir u.þ.b. ári síðan. Með því móti myndu dómarar styrkjast í þeirri trú að störf þeirra séu einhvers metin af þjóðinni og jafnvel eiga auðveldara með að kyngja þeirri staðreynd að þeir þurfa iðulega að vinna fram á kvöld og um helgar í þágu almennings, án sérstaks endurgjalds. Þá er að sjálfsögðu rétt hjá dómstjóranum, og það krefst aðeins einfaldrar breytingar á nýjum sakamálalögum, að héraðsdómstólar eiga ekki að bera ábyrgð á afgreiðslu dómsgerða til Hæstaréttar í kjölfar áfrýjunar opinberra mála. Þetta er arfleifð liðinna tíma þegar skil milli ákæruvalds og dómsvalds voru óskýr. Hlutlaus dómstóll hefur enga hagsmuni af áfrýjun og hvorki á né má taka þátt í því ferli. Gagnvart almenningi og sakborningum þarf þetta að vera ljóst. Dómstóll á ekki að vinna störf ákæruvaldsins og allra síst að þjóna ákæruvaldinu sem vélritunarskrifstofa. Ef lýst er yfir áfrýjun er rétt að héraðsdómstólar sendi frumrit málsskjala, þingbókar- og dómsendurrit, sem og hljóðupptökur til ákæruvaldsins. Hvað ákæruvaldið síðan gerir við þessi gögn er héraðsdómi með öllu óviðkomandi. Hefði nú verið betra að þegja?
mbl.is Dómstólarnir eru tifandi tímasprengja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hæpin lausn á miklum vanda

Um leið og því ber að fagna að stjórnvöld viðurkenni nú loks bága fjárhagsstöðu dómstólanna og stóraukið vinnuálag á dómendur, vaknar sú spurning hvort og hvernig ráðagerð dómsmálaráðherra muni leysa vandann. Hvaðan eiga hinir nýju héraðsdómarar að koma? Hversu lengi verða þeir að tileinka sér þau vinnubrögð sem eru nauðsynleg til að ná hraða og skilvirkni í afgreiðslu dómsmála? Hverjir munu sækja um jafn ábyrgðarmikið og krefjandi embætti fyrir þau laun sem ríkisvaldið býður upp á? Væri ekki nær að skila aftur þeirri 15% launalækkun, eða í það minnsta hluta hennar, sem ríkisvaldið knúði fram fyrir u.þ.b. ári síðan, þannig að núverandi dómendur styrktust í þeirri trú að það væri þess virði að inna dómstörfin af hendi og leggja sig alla fram í því efni? Hversu lengi eiga dómarar að vinna fram á kvöld og um helgar, án þess að fá greitt fyrir það vinnuframlag? Ég læt þessu ósvarað. Hinu get ég svarað, sem héraðsdómari til nær tveggja áratuga, viðvíkjandi afgreiðslu dómsgerða til Hæstaréttar í kjölfar áfrýjunar opinberra mála. Breyta ber nýjum sakamálalögum á þann veg að ákæruvaldið beri alfarið ábyrgð á vinnslu og skilum dómsgerða. Þetta er að mínu mati augljóst. Hví er sú skylda lögð á héraðsdómstóla að vélrita upp skýrslutökur úr þinghöldum og ljósrita skjöl fyrir ákæruvaldið? Þetta er arfleifð liðinna tíma þegar skil milli ákæruvalds og dómsvalds voru óskýr. Hlutlaus dómstóll hefur enga hagsmuni af áfrýjun og hvorki á né má taka þátt í því ferli. Gagnvart almenningi og sakborningum þarf þetta að vera ljóst. Dómstóll á ekki að vinna störf ákæruvaldsins og allra síst að þjóna ákæruvaldinu sem vélritunarskrifstofa. Ef lýst er yfir áfrýjun er rétt að héraðsdómstólar sendi frumrit málsskjala, þingbókar- og dómsendurrit, sem og hljóðupptökur til ákæruvaldsins. Hvað ákæruvaldið síðan gerir við þessi gögn er héraðsdómi með öllu óviðkomandi. Hefði nú verið betra að þegja? 
mbl.is Héraðsdómurum fjölgað um fimm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband