Hæpin lausn á miklum vanda

Um leið og því ber að fagna að stjórnvöld viðurkenni nú loks bága fjárhagsstöðu dómstólanna og stóraukið vinnuálag á dómendur, vaknar sú spurning hvort og hvernig ráðagerð dómsmálaráðherra muni leysa vandann. Hvaðan eiga hinir nýju héraðsdómarar að koma? Hversu lengi verða þeir að tileinka sér þau vinnubrögð sem eru nauðsynleg til að ná hraða og skilvirkni í afgreiðslu dómsmála? Hverjir munu sækja um jafn ábyrgðarmikið og krefjandi embætti fyrir þau laun sem ríkisvaldið býður upp á? Væri ekki nær að skila aftur þeirri 15% launalækkun, eða í það minnsta hluta hennar, sem ríkisvaldið knúði fram fyrir u.þ.b. ári síðan, þannig að núverandi dómendur styrktust í þeirri trú að það væri þess virði að inna dómstörfin af hendi og leggja sig alla fram í því efni? Hversu lengi eiga dómarar að vinna fram á kvöld og um helgar, án þess að fá greitt fyrir það vinnuframlag? Ég læt þessu ósvarað. Hinu get ég svarað, sem héraðsdómari til nær tveggja áratuga, viðvíkjandi afgreiðslu dómsgerða til Hæstaréttar í kjölfar áfrýjunar opinberra mála. Breyta ber nýjum sakamálalögum á þann veg að ákæruvaldið beri alfarið ábyrgð á vinnslu og skilum dómsgerða. Þetta er að mínu mati augljóst. Hví er sú skylda lögð á héraðsdómstóla að vélrita upp skýrslutökur úr þinghöldum og ljósrita skjöl fyrir ákæruvaldið? Þetta er arfleifð liðinna tíma þegar skil milli ákæruvalds og dómsvalds voru óskýr. Hlutlaus dómstóll hefur enga hagsmuni af áfrýjun og hvorki á né má taka þátt í því ferli. Gagnvart almenningi og sakborningum þarf þetta að vera ljóst. Dómstóll á ekki að vinna störf ákæruvaldsins og allra síst að þjóna ákæruvaldinu sem vélritunarskrifstofa. Ef lýst er yfir áfrýjun er rétt að héraðsdómstólar sendi frumrit málsskjala, þingbókar- og dómsendurrit, sem og hljóðupptökur til ákæruvaldsins. Hvað ákæruvaldið síðan gerir við þessi gögn er héraðsdómi með öllu óviðkomandi. Hefði nú verið betra að þegja? 
mbl.is Héraðsdómurum fjölgað um fimm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband